Það eru mörg atriði sem hægt er tileinka sér við að takast á við endómetríósu, m.a. eftirfarandi:
Borðaðu alvöru morgunmat alla daga og taktu lyfin með ef þú ert á slíku. Gættu þess að borða nóg af trefjum og fáðu þér að drekka (helst ekki kaffi). Morgunmaturinn gefur þér orku til að byrja daginn.
Borðaðu á 2-3 klst. fresti allan daginn til að forðast blóðsykurfall. Morgunmatur, smábiti, hádegismatur, smábiti, kvöldmatur, smábiti. Athugaðu að smábitinn þarf ekki að vera nema hálft epli eða 3 döðlur eða annað álíka. Þetta heldur blóðsykrinum í jafnvægi og þú losnar við slenið eftir hádegi.
Drekktu vatn. Fái líkaminn ekki nægan vökva þykknar blóðið og hjartað á erfiðara með að pumpa. Þetta veldur þreytutilfinningu. Drekktu lágmark líter á dag, helst einn og hálfan til tvo eftir aðstæðum. Það er eðlilegt að fara á klósettið á 2-4 klst. fresti yfir daginn og þvagið á að vera ljóst eða fölgult að lit. Drykkir með kolsýru innihalda kemísk efni sem þú þarft ekki á að halda yfir daginn. Vatnið er ókeypis og best fyrir líkamann.
Hlustaðu á tónlist. Tónlist örvar heilann og léttir lundina. Með nútímatækni er auðvelt að koma sér upp tækjum til að hlusta á tónlist hvar og hvenær sem er. Veldu þér tónlist sem er skemmtileg og uppörvandi yfir daginn en róleg og afslappandi á kvöldin. Syngdu/raulaðu með. Það er ótrúlegt hvað það gerir fyrir mann.
Lækkaðu hitann í svefnherberginu, sofðu með rifu á glugganum og lækkaðu í ofninum. Ef þú ert kulsækin þá klæðirðu þig inni á baði á morgnana í staðinn. Það sama á við um aðra staði í íbúðinni. Gættu þess að lofta vel út reglulega. Molla dregur þig niður og þú verður óendanlega þreytt og framtakslaus.
Hreyfðu þig. Algert grundvallaratriði ef þér á að líða vel. Þú sefur betur, brennslan í líkamanum verður hraðari, lundin verður léttari, þér líður betur með sjálfa þig, þú verður líkamlega sterkari og betur í stakk búin til að takast á við hvað sem er. Ekki samt vera með neinn æsing. Röskur göngutúr í 30-60 mínútur þrisvar til fimm sinnum í viku er frábær aðferð sem kostar þig ekki krónu. Sundið er einstaklega gott líka.
Fáðu útrás. Ef þú finnur fyrir kvíða, spennu, áhyggjum o.s.frv. finndu leið til að fá útrás fyrir þessar tilfinningar. Það er sama hversu vel þér tekst að fela vanlíðanina fyrir öðrum, þú skaðar bara sjálfa þig með feluleiknum. Talaðu við vin/vinkonu, náinn ættingja, hlutlausan aðila eins og geðlækni eða sálfræðing, eða hreinlega talaðu við sjálfa þig í speglinum inni á baði. Allt frekar en að birgja inni.
Góður svefn er grunnurinn að þessu öllu saman. Jafnvel þótt þú sofnir strax á kvöldin er ekki þar með sagt að þú sofir vel alla nóttina. Ef þú ert ennþá þreytt á morgnana eða ert búin eftir miðjan dag skaltu kanna málið. Heimilislæknirinn getur gefið þér eitthvað til að sofa betur eða þú getur reynt gömlu húsráðin sem allir hafa á takteinum. Ef þú getur ekki sofnað á 10-15 mínútum skaltu fara framúr og gera eitthvað róandi, t.d. lesa, prjóna, horfa á nóttina. Þegar þú ert orðin þreytt aftur skaltu fara í rúmið.