Hvað er endómetríósa?

Endómetríósa er krónískur, fjölkerfa og fjölgena sjúdómur sem veldur mismiklum einkennum og hefur mismikil áhrif á daglega líf fólks með sjúkdóminn.  Endómetríósa leggst á 1 af hverjum 10 einstaklingum sem fæðast í kvenmannslíkama.

Nánari skilgreining

 Sjúkdómurinn er gjarnan kallaður endó í daglegu tali, ekki er lengur notast við hugtakið legslímuflakk. Sjúkdómurinn lýsir sér á þann veg að endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju á hinum ýmsu líffærum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum. Þannig getur einstaklingur með endómetríósu verið með innvortis blæðingar í hverjum mánuði á þeim stöðum sem frumurnar eru. Þar sem þetta blóð kemst ekki í burtu geta myndast blöðrur á þessum stöðum. Einnig geta myndast samgróningar milli líffæra og innan kviðarholsins eða annarsstaðar í líkamanum. Allt getur þetta geta valdið miklum sársauka.

Orðið LEGSLÍMUFLAKK er ekki lengur notað

Áður var talið að sjúkdómurinn stafaði af því að frumur úr innra lagi legsins færu á flakk um líkamann og var þá talað um legslímuflakk. Rannsóknir hafa sýnt fram á að endómetríósufrumur eru ekki þær sömu og þær sem finnast í innra lagi legs þó að áþekkar séu. Af þessu leiðir að íslenska hugtakið legslímuflakk er misvísandi og því er það ekki lengur notað, þess í stað er notast við alþjóðlegt heiti sjúkdómsins endómetríósa þegar fjallað er um hann. Áætlað er að um 200 milljónir kvenna alls staðar að úr heiminum séu með endómetríósu, meðalgreiningartími margra þeirra er áratugur. Í augnablikinu er orsök endómetríósu ekki þekkt og við sjúkdómnum er engin lækning. Endómetríósa getur valdið miklum sársauka, þvagblöðru- og þarmavandamálum auk ófrjósemi. Einkenni eru mismikil milli einstaklinga. Talið er að um 10% stúlkna og kvenna séu með sjúkdóminn, það er einnig þekkt að trans karlar og kynsegin fólk sé með sjúkdóminn. Sýnt hefur verið fram á að endómetríósa sé sjúkdómur sem getur gengið í erfðir.

Hvar í líkamanum finnst endómetríósa?

Endómetríósa er algengust í kviðarholi en hefur fundist í öllum helstu líffærum líkamans og í öllum 11 líffærakerfum líkamans. Algengast er að frumurnar finnist á æxlunarfærum eins og á legi, eggjastokkum, eggjaleiðurum, legböndum, lífhimnu og hvar sem er í rýminu á milli þvagblöðru og legs og einnig í rýminu á milli legs, legganga og endaþarms sem nefnist Pouch of Douglas. Endómetríósa finnst stundum í þveitiskerfi (þvagblaðra, nýrnaleiðarar eða nýru), á meltingarfærum (t.d. ristli, endaþarmi, smáþörmum og botnlanga).

Í sjaldgæfum tilfellum hefur endómetríósa fundist á þind, í lungum, nefi, nafla, heila, á taugum og jafnvel inn í þeim, í örvef eftir keisaraskurð og á fleiri stöðum

Á hverja leggst sjúkdómurinn helst?

Endómetríósa gerir yfirleitt vart við sig frá fyrstu blæðingum. Talið er að allt að 10% einstaklinga fædda í kvenmannslíkama séu með endómetríósu, u.þ.b. 1 af hverjum 10, en þar af eru margir sem aldrei greinast með sjúkdóminn. Þau sem ekki fá greiningu lifa ýmist með sjúkdóminn án teljanlegra einkenna eða fá aldrei viðeigandi greiningu á sjúkdómnum. Endómetríósa hefur m.a. greinst í örfáum tilfellum í karlmönnum.
Eins og áður segir er ekki á hreinu hvað orsakar endómetríósu en erfðir koma við sögu. Líklega er endómetríósa flókinn fjölgena sjúkdómur. Einstaklingar með sjúkdóminn eru skyldari innbyrðis samanborið við einstaklinga úr handahófskenndu úrtaki. Einstaklingur er 5-7 sinnum líklegri til að vera með endómetríósu ef náinn ættingi er með sjúkdóminn.
Endómetríósa getur haft áhrif á alla þætti lífsins – nám, starfsframa, efnahag, sambönd og almennt heilbrigði og velferð. Endómetríósa hrjáir einstaklinga óháð þjóðerni og samfélagslegri stöðu.

Hver eru einkenni endómetríósu?

Einkenni endómetríósu geta verið mjög mismunandi milli einstaklinga. Algengast er að endómetríósu fylgi mikill sársauki við blæðingar en þó geta einstaklingar með sjúkdóminn verið verkjalitlir á blæðingum, sumir finna engin einkenni. Einstaklingur með væga endómetríósu getur fundið fyrir miklum einkennum á meðan einstaklingur með djúpstæða endómetríósu (e. deep infiltrating endometriosis) finnur lítil einkenni.

Algeng einkenni endómetríósu eru:

  • Sársauki: í kviðarholi, við blæðingar (mikill), fyrir blæðingar, við egglos
  • Óeðlilegar blæðingar: langar, miklar, óreglulegar, með brúnni útferð fyrir og eftir, milliblæðingar
  • Verkir: við blæðingar eða egglos í mjóbaki eða niður eftir fæti, í kviðarholi milli blæðinga, við eða eftir kynlíf, tendir þvagblöðru, tengdir ristli eða þörmum
  • Í meltingarvegi: hægðatregða, niðurgangur, uppblásinn magi, ógleði, uppköst
  • Ófrjósemi og erfiðleikar: við að verða barnshafandi
  • Síþreyta
  • Stundum eru einstaklingar einkennalausir eða einkennalitlir og greinast fyrst þegar um önnur heilsuvandamál er að ræða, t.d. ófrjósemi.

Óalgengari einkenni eru:

  • Verkir rétt neðan við rifbein sem versna við innöndun. Þetta gæti verið endómetríósa á þindinni.
  • Verkir í hluta af öri eftir keisaraskurð sem eru sérstaklega slæmir meðan á blæðingum stendur.
  • Verkur niður aftanverðan fótlegg, hugsanlega vegna þrýstings af völdum endómetríósu á settaugina (e. sciatic nerve) sem liggur frá mjóbaki og niður fótlegginn.
  • Lítill hnúður í naflanum sem er aumari meðan á blæðingum stendur.
  • Blóðnasir á meðan blæðingar standa yfir. Gæti verið endómetríósa í nefi.

Ef einhver af ofangreindum einkennum eru til staðar er nauðsynlegt að fá greiningu hjá lækni til þess að staðfesta að um endómetríósu sé að ræða. Kviðarholsspeglun er eina leiðin til að staðfesta greiningu á endómetríósu en stundum er stuðst við klíníska greiningu út frá einkennum og skoðun læknis; það á sérstaklega við um unga einstaklinga.