Meðferðir við endómetríósu eru fyrst og fremst af þrennu tagi, þ.e. skurðaðgerð, hormónameðferð og verkjameðferð.
Skurðaðgerð
Þegar um skurðaðgerðir er að ræða er mikilvægt að kynna sér vel alla þætti þeirra áður en aðgerðin fer fram. Vertu dugleg að spyrja heilbrigðisstarfsfólkið um allt sem þér dettur í hug, hversu kjánalega sem þær spurningar kunna að hljóma. Einnig er mikilvægt að huga að því að vera ekki ein fyrstu dagana eftir heimkomu. Sá tími er misjafn eftir umsvifum aðgerða. Ef þú býrð ein mælum við með því að þú fáir einhvern til að vera hjá þér fyrstu dagana á eftir eða flytjir þig þangað sem einhver getur verið til staðar. Sama hversu sterk og ákveðin við erum þá þurfum við öll aðstoð þegar við verðum veik. Auk þess getur það skipt sköpum fyrir árangur aðgerðarinnar að fara vel með sig fyrst á eftir.
Kviðarholsspeglun
Kviðarholsspeglun er eina örugga leiðin til að greina endómetríósu. Venjulega er hægt að greina sjúkdóminn og fjarlægja afbrigðilegan vef úr kviðarholinu í sömu aðgerðinni. Misjafnt er hversu lengi konur eru að jafna sig eftir slíka aðgerð og má leiða líkum að því að það fari eftir umfangi aðgerðarinnar, þ.e.a.s. hversu mikið var fjarlægt í aðgerðinni. Algengast er að konur séu komnar aftur til vinnu nokkrum dögum eftir slíka aðgerð en sá tími getur þó lengst upp í 1-2 vikur. Einnig er misjafnt hvort konur fari heim samdægurs eða gisti eina nótt á spítalanum.
Legnám
Til eru þrjár aðferðir til að fjarlægja legið: í gegnum leggöng, með kviðarholsspeglun eða í gegnum skurð á kvið. Misjafnt er hvað hentar hverju sinni og því er afar mikilvægt að fá góðar upplýsingar hjá lækni fyrirfram. Aukaverkanir eru einnig mismunandi eftir því hvaða aðferð er notuð sem og sá tími sem það tekur að jafna sig. Þessar aðgerðir eru því afar einstaklingsbundnar.
Hafa ber þó í huga að ekki er hægt að ábyrgjast að endómetríósa hverfi þó svo að legið sé fjarlægt. Þess vegna er afar mikilvægt að leita upplýsinga og fá jafnvel annað álit hjá öðrum lækni áður en ákvörðun um jafn viðamikla aðgerð er tekin.
Eggjastokkar fjarlægðir
Svipað gildir um legnám, en konan þarf þó yfirleitt að fá hormónalyf eftir aðgerðina til að bæta upp það sem tapast þegar eggjastokkarnir eru fjarlægðir.
Stærri aðgerðir í tengslum við þvagblöðru, ristil, þarma og lungu
Þessar aðgerðir eru ekki algengar. Venjulega er búið að gera kviðarholsspeglun áður, en ekki var hægt að fjarlægja afbrigðilegu slímhúðina úr kviðarholinu í þeirri aðgerð. Í þessum tilfellum er endómetríósan mjög mikil og oft búin að festa sig við líffæri í kviðarholinu. Algengast er að þau líffæri séu þvagblaðran og þarmarnir. Það fer svo eftir stigi sjúkdómsins hvort þarf að fjarlægja hluta líffæranna. Venjulega er gerður lítill þverskurður ofan lífbeins en það er sami skurður og við keisaraskurð. Aðgerðirnar sjálfar eru einstaklingsbundnar og fara eftir umfangi endómetríósunnar hjá hverri konu.
Sama hvort áætluð aðgerð er stór eða lítil er nauðsynlegt að kynna sér fyrirfram allt ferli aðgerðarinnar, frá undirbúningi til eftirmeðferðar. Það á t.d. við um verkjameðferð eftir aðgerðina. Algengt er að mænurótardeyfing sé sett upp fyrir aðgerð og höfð uppi fyrstu dagana. Ef fólk vill ekki af einhverjum ástæðum fá mænurótardeyfingu er hægt að fá önnur verkjalyf. Mænurótardeyfingin er þó áhrifaríkari verkjastilling og flýtir fyrir því að konan komist á fætur aftur. En við mælum hiklaust með því að ræða við svæfingarlækni ef einhvers ótta gætir varðandi þessa þætti.
Skurðlæknirinn á að hafa reynslu af aðgerðunum og fullkomin tæki til að geta átt við endometríósuna í aðgerðinni eins og þarf. Því er ekki sama hvar aðgerðin er gerð eða hver framkvæmir hana.
Þá skiptir máli að undirbúa sig vel bæði líkamlega og andlega. Konan er fljótari að jafna sig ef hún er í góðu líkamlegu formi og hugurinn skiptir líka miklu máli í því hversu vel manni gengur að komast af stað aftur. Vertu þess vegna óhrædd við að leita þér upplýsinga.
Hikaðu ekki við að nota þessar upplýsingar í samtali þínu við heilbrigðisstarfsfólk og sendu póst til stjórnar ef þú þarft frekari ráðgjöf eða upplýsingar.
Lyf
Texti í vinnslu.