Minningarorð um Elsu Guðmundsdóttur

Elsa Guðmundsdóttir (Mynd fengin að láni af Facebooksíðu hennar).

Þann 25. janúar síðastliðinn var Elsa Guðmundsdóttir, endósystir okkar jarðsungin. Elsa fæddist í Reykjavík 25. september 1956. Hún andaðist á líknardeild Landspítalans 10. janúar 2019.

Elsa var félagskona Samtaka um endómetríósu. Ég hafði fyrst samband við hana í aðdraganda Hvatningargöngu Samtaka um endómetríósu sem haldin var í Viku endómetríósu árið 2014. Þrátt fyrir að Elsa væri þá stödd erlendis, áttum við saman langt spjall og deildum með hvor annarri, stórum þáttum í okkar lífssögu. Við vissum báðar af eigin reynslu hvernig endómetríósa getur vafið sér inn í alla þætti lífsins og verið ein stærsta prófraun þeirra kvenna sem sjúkdóminn hafa. Það er dýrmætt að deila reynslu sinni með endósystur sem einfaldlega skilur og „veit“.

Þar sem Elsa var stödd í útlöndum gat hún ekki stutt okkur með þátttöku í göngunni en lagði sitt lóð á vogarskálarnar með því að skrifa grein um líf með endómetríósu. Greinin birtist í Kvennablaðinu þann 13. mars 2014 og er ein sterkasta grein um líf með endómetríósu sem ég hef lesið. Ég vissi ekki fyrr en þá að hægt væri að skrifa um þann harða lífsförunaut sem endómetríósa er, með jafn ljóðrænum hætti og raun bar vitni. Síðan þá tók Elsa mér ávallt vel þegar ég leitaði til hennar vegna starfa minna fyrir samtökin.

Fyrir u.þ.b. þremur árum hafði svo Elsa samband við mig sem þáverandi formann Samtaka um endómetríósu til að deila með mér hugmyndum sínum um menntasjóð fyrir konur með endómetríósu. Hún sagði mér að sjálf hefði hún ávallt viljað mennta sig en hefði fljótlega þurft að sætta sig við að námsframvinda hennar yrði ekki á sama hraða og hjá þeim sem heilbrigðir voru. Því miður náðum við ekki að koma fyrrgreindu verkefni í þann farveg sem við hefðum óskað en í dag er mér efst í huga þakklæti fyrir þann velvilja sem hún sýndi samtökunum og þar með sínum endósystrum.

Elsa var lærður hagfræðingur og hóf doktorsnám í umhverfisþróunarfræði fyrir nokkrum árum. Rannsóknir fyrir doktorsverkefni sitt vann Elsa á Kosta Ríka. Hún varð að fresta námi fyrir rúmu ári vegna þeirra veikinda sem svo tóku hana frá okkur.

Ég leyfi mér að vitna í orð bróður hennar, Guðjóns Inga sem sagði í minningargrein sinni um Elsu: „Systir mín var hetja sem braust til mennta þrátt fyrir erfiða sambúð með „endómetríósu“. Krabbameinið sem uppgötvaðist þegar við héldum að tími endómetríósunnar væri á enda var bitur endir á lífi hennar.“

Samtök um endómetríósu senda Björgólfi Thorsteinsson eftirlifandi maka Elsu og fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Samtaka um endómetríósu
Silja Ástþórsdóttir

Um höfundinn